Sú aðgerð, sem ríkisstjórnin boðar, að nýta skattleysi á viðbótarlífeyrissparnaði til næstu þriggja ára, hvort sem er til að greiða inn á höfuðstól verðtryggðra lána eða inn á húsnæðissparnaðarreikning mun draga úr veltu á fasteignamarkaði næstu 3-4 árin, að mati IFS greiningar. Fyrirtækið birti í dag greiningu sína á áhrifum aðgerðarinnar.

„Þær fjölskyldur sem hafa öðlast rétt til þess að nýta skattleysi séreignarsparnaðar til að greiða inn á íbúðalán gætu frestað því að selja eign sína og kaupa aðra þar til áhrif aðgerðarinnar hafa að fullu komið í hækkun veðrýmis. Eingöngu þeir íbúðareigendur sem keyptu fyrir 1. des. 2013 geta nýtt sér skattahagræði séreignarsparnaðarleiðarinnar,“ segir IFS greining.

Þá segir að leigendur geti nýtt sér sama skattahagræði til að leggja fyrir í húsnæðissparnaðarreikning í 3-4 ár. Þeir muni hins vegar missa skattahagræði, ef þeir kaupa eign á næstu 3-4 árum. Leigjendur fá því hvata, samkvæmt tillögunum, til að fresta íbúðakaupum.