Tilboð fyrir að minnsta kosti 3 þúsund milljarða bandaríkjadala, bárust í 11% hlut í kínverska fjártæknirisanum Anto Group sem stofnandi Alibaba, Jack Ma leiðir, í hlutafjárútboði félagsins sem fram fór fyrir helgi. Félagið heldur utan um greiðslulausnina Alipay sem um 700 milljón manns nota daglega.

Það samsvarar um 422 þúsund milljörðum, eða 422 billjónum, íslenskra króna, en svo gífurleg eftirspurn var eftir hlutunum að um tíma lá niðri áskriftarkerfi eins sölufyrirtækjanna sem sáu um útboðið.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum stefndi í útboðið á fyrirtækinu yrði stærsta hlutafjárútboð sögunnar sem myndi verðleggja fyrirtækið á 313 milljarða dala. Þar með var eftirspurnin eftir hlutunum ríflega tífallt markaðsvirði félagsins, sem og ríflega tífallt markaðsvirði JPMorgan Chase & Co.

Nærri 900 sinnum meiri eftirspurn en framboð eftir sumum hlutum

Útboðið sem var í tvennu lagi þar sem helmingur var í boði fyrir hvort um sig kauphöllina í Hong Kong og Shanghæ, en á þeim síðarnefnda var einungis fimmtungur bréfanna í boði til almennra fjárfesta, hin 80% voru sett til hliðar fyrir ýmsa stofnanafjárfesta.

Samkvæmt greinanda gæti þó allt að 96% bréfanna sem í boði voru í Shanghæ, sem er á meginlandi Kína og undir reglum kommúnistastjórnarinnar þar, og 97,5% sem í boði voru í markaðnum á Hong Kong eyju, sem á samkvæmt samkomulagi frá árinu 1997 að lúta sérstökum reglum.

Eftirspurnin eftir þessum litla hluta bréfanna sem í boði voru til almennra kaupenda á meginlandi Kína var 870 sinnum framboðið, en eftirpsurnin eftir þeim hluta sem þeir gátu keypt í Hong Kong var 394 sinnum framboðið.

Haft er eftir einum kaupanda í frétt Bloombergi hvernig hann þurfti að endurhlaða netsíðuna hjá sér mörgum sinnum til að komast að og kaupa, þar sem fyrstur kom, fyrstur fékk reglan gilti.

Vaxtakjör á gírun undir 1%

Margir fjárfestar nýttu sér ódýr lán til að kaupa í félaginu, en jafnframt er talið að lágt lágmarksútboð sem samsvaraði um 75 þúsund íslenskum krónum hafi hjálpað til við að fá almenna fjárfesta í útboðið.

Yuki Chung, þrítugur aðstoðarmaður háskólakennara í Hong Kong ætlaði að setja andvirði 500 þúsund Hong Kong dala, eða um 9,1 milljón íslenskra króna í útboðið, en þar af yrði 90% af því á lánum.

„Lánsvextirnir sem bankarnir veita geta verið minna en 1%, sem er klárlega mjög mikið aðdráttarafl,“ hefur Bloomberg eftir henni. „Allir eru að taka þátt í hlutabréfaútboðinu, svo mér fannst ég þurfa aðgera það líka. Ég vil ekki missa af tækifærinu.“

Þannig lögðu 5,16 milljón minni fjárfesta fram tilboð sem samsvara 2.850 milljörðum Bandaríkjadala, eða 19 þúsund milljörðum kínverska yuana, í útboðinu. Þátttakendur urðu að eiga að lágmarki 500 þúsund yuan á reikningum sínum, sem samsvarar um 10,5 milljónum íslenskra króna.

Þessi mikla eftirspurn hefur leitt til vangaveltna um að bréfin geti tekið hástökk þegar viðskipti hefjast með bréfin 5. nóvember næstkomandi. Efasemdarmenn benda hins vegar á áhættuna vegna komandi kosninga í Bandaríkjunum sem Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um , harðari reglna gagnvart Kína og aukinna kórónuveirusýkinga út um allan heim.