*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 11. júlí 2014 17:07

Eftirspurnin kom EasyJet á óvart

Framkvæmdastjóri EasyJet segir greinilegt að Ísland sé í tísku.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet mun nú hafa átta áfangastaði frá Íslandi eftir að þrjár nýjar flugleiðir, til Gatwick, Genfar og Belfast, voru tilkynntar í vikunni.

Að sögn Ali Gayward, framkvæmdastjóra EasyJet í Bretlandi, kom þeim verulega á óvart hversu mikil eftirspurnin var eftir flugferðum til Íslands.

„Ísland er greinilega í tísku núna og við erum farin að sjá mikla eftirspurn, sérstaklega yfir vetrartímann.“ Spurð að því hvernig farþegarnir skiptast á leiðunum til Íslands segir hún að flestir séu á leið hingað til lands sem ferðamenn. „Það eru einnig margir farþegar sem eru á leið í tengiflug og þeim farþegum mun fjölga eftir að Gatwick kemur í spilið,“ segir Gayward. „Í kringum 11% af farþegum okkar koma frá Íslandi og þótt við sjáum ekki fram á að það hlutfall muni breytast, þá mun fjöldinn innan þessa hlutfalls aukast verulega með nýju áfangastöðunum.“

Stikkorð: EasyJet