*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 22. október 2019 07:07

Eftirspurnin muni bara aukast

Framkvæmdastjóri Nox Medical segir að aukin vitundarvakning fyrir mikilvægi svefns muni auka eftirspurn eftir betri svefni.

Sveinn Ólafur Melsted
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical.
Gígja Einarsdóttir

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, segir að aukin vitundarvakning fyrir mikilvægi svefns feli óneitanlega í sér fjölmörg framtíðartækifæri fyrir Nox Health.

„Með hverjum degi sem líður er mannkynið allt að verða meðvitaðra um mikilvægi svefns. Það er jafnljóst að það er nokkuð stór hluti mannkyns sem er að glíma við ónógan svefn og sumir alvarlegar svefnraskanir. Mannskepnan er eina spendýrið á jörðinni sem er meðvitað að stytta sinn svefntíma. Vitsmunaþroski og geta okkar til að takast á við flókin verkefni byggir á nægum og góðum svefni og því óæskilegt að við séum að stela klukkutímum af svefninum okkar. Svefninn er undirstaða góðrar heilsu og vellíðunar og við þekkjum það öll að við einfaldlega elskum góðan svefn. Nýlegar rannsóknir sýna að samfélagslegur kostnaður stærstu þjóðríkja heims vegna skertra svefngæða þegna þeirra nemur um tveimur prósentum að þjóðarframleiðslu þessara ríkja. Kostnaður þessi birtist í minni framleiðni, fjarvistum starfsfólks, aukinni slysatíðni og auknum útgjöldum til heilbrigðismála. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og ef við veltum þessum tölum upp á íslenskan veruleika lætur nærri að samfélagslegur kostnaður hér sé rúmir 50 milljarðar króna á ári. Það er u.þ.b. sama fjárhæð og kostar að byggja nýtt háskólasjúkrahús.

Eftirspurnin eftir betri svefni á bara eftir að aukast. Tæknilausnirnar sem við erum að bjóða geta sparað mikinn kostnað í alltof dýrum heilbrigðiskerfum hvar sem er í heiminum. Með nýrri og betri tækni getum við lækkað kostnað verulega, aukið gæði svefngreininga, beitt sjálfvirkni með aðstoð gervigreindar ásamt því að draga úr sóun í núverandi ferli við greiningu og meðhöndlun svefnvandamála. Við hjá Nox Health erum í einstakri stöðu til að útfæra þessar lausnir og mæta þessari eftirspurn og ná til mun stærri hóps en við gerum nú. Í dag er Nox Health í farabroddi þeirra fyrirtækja í heiminum sem bjóða lausnir á þessu sviði og á sér í sjálfu sér ekki hliðstæðu. Við höfum á að skipa rannsóknarteymi sem vinnur að rannsóknum með stærstu háskólum og sjúkrahúsum í heimi. Þar er saman komin tækniþekking okkar og yfirburðageta á því sviði að hanna aðferðir og nýjar tæknilausnir. Á hinum endanum eru sérfræðingar á sviði læknavísindanna. Þegar þessir tveir hópar sérfræðinga leggja saman krafta sína, þá erum við að breyta því hvernig læknavísindin horfa á svefn og meðhöndlun svefnvandamála. Kjarnahæfni okkar fyrirtækis byggir á þeim mannauði sem fyrirækið hefur byggt upp á síðustu 15 árum. Ef okkur lánast að skapa áfram skilyrði hér á landi til að bæta við þennan mannauð er ekkert því til fyrirstöðu að Nox Health geti margfaldað stærð sína. Í mínum huga er engum blöðum um það að fletta að Nox Health hefur alla burði til þess að spila lykilhlutverk í þessari framtíðarsýn."

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér