Baptistapresturinn Martin Luther King er með frægari baráttumönnum fyrir mannréttindum í sögunni. Vinsældir hans voru og eru gríðarlegar og barátta hans fyrir auknum réttindum svartra í Bandaríkjunum vakti athygli víða um heim.

King notaði baráttuaðferðir sem einkenndust af andófi án ofbeldis og fólust aðallega í því að skipuleggja setuverkföll og kröfugöngur.

Flestir þekkja hin frægu orð Martins Luthers King „Ég á mér draum“ sem eru upphafsorð ræðu sem hann hélt við minnismerki Lincolns 28. ágúst 1963 í Washington.

Í þeirri ræðu sagði King meðal annars: „Ég á mér draum um að sá tími komi er þjóðin rísi upp með þessa játningu sína á vörunum: „Sá sannleikur er okkur auðsær, að allir menn eru skapaðir jafnir.“

Eiginkona Martins Luthers King, Coretta King, sagði eftir andlát hans: „Daginn sem blökkufólk og aðrir þrælar verða sannarlega frjálsir og fátæktinni útrýmt, daginn sem engin stríð verða háð, þann dag veit ég að maður minn hvílir í verðskulduðum friði.“

Martin Luther King var skotinn til bana 4. apríl árið 1968, fyrir 40 árum. James Earl Ray játaði á sig morðið og var hann dæmdur í 99 ára fangelsi.

____________________________________

Í helgarblaði Viðskiptablaðsinis er minningu Martin Luther Kings minnst í myndmáli.