„Ég er önnum kafinn eins og er. Ég er að afgreiða fólk hér í búðinni,“ segir Matthías Sigurðsson, framkvæmdastjóri Europris á Íslandi. Eins og fram kemur í auglýsingum í dagblöðum í dag hefur norska verslanakeðjan Europris Holding SA ákveðið að hætta rekstri verslana hér og verður þeim lokað. Öllu starfsfólki Europris á Íslandi var sagt upp um mánaðamótin.

Verslunin kveður landann með rýmingarsölu í dag þar sem boðið verður upp á 20%-50% afslátt.

Matthías þakkar fyrir viðskiptin síðastliðin tíu ár í auglýsingum í dagblöðum. Verslanir Europris eru þrjár talsins, í Reykjavík, Kópavogi og á Selfossi. Þær voru sex þegar best lét.

Matthías hafði engan tíma til að tjá sig við vb.is um verslunina í morgun spurður um það hvað taki við. Hann vísaði til anna á rýmingarsölunni en sagðist ætla að ræða málið síðar.