Nýr markaðsstjóri Samskipa, Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, segir að eftir 18 ár í íþróttavörugeiranum hafi hún verið tilbúin að breyta til. „Það er draumur í dós að fá tækifæri til að komast inn í algerlega nýjan geira, að geta sökkt sér inn í ný mál og læra nýjar skammstafanir og allt tengt því,“ segir Þórunn Inga.

„Mín helstu verkefni hjá Samskipum verða að leiða innri og ytri markaðssetningu, en forstjórinn, Birkir Hólm Guðnason, leggur áherslu á góða upplýsingagjöf. Hér eru virkilega skemmtilegir tímar framundan eftir ákveðnar breytingar síðustu mánuði. Nýtt leiðarkerfi með aukinni tíðni ferða leit dagsins ljós í lok síðasta árs, sem hjálpar okkur til að blása til sóknar og auka markaðshlutdeild Samskipa.“

Þórunn Inga segir það þó hafa verið mjög skemmtilegt að starfa við sölu- og markaðssetningu á stórum íþróttavörumerkjum eins og Nike og síðar Under Armour.

„Ég byrjaði á því að vinna í íþróttavöruverslun, svo fór ég upp í Austurbakka sem þá var með Nike umboðið á Íslandi þar sem ég fékk tækifæri til þess að vinna mismunandi stöður, ásamt því að ég kláraði nám í markaðs- og alþjóðaviðskiptum samhliða vinnunni. Síðan fór ég yfir til Altis, sem er með Under Armour vörumerkið,“ segir Þórunn Inga sem tók MBA nám samhliða vinnunni hjá Altis.

„Ég er alger dellukona og finnst eiginlega ekkert jafnskemmtilegt og gera hluti sem halda mér virkri, eins og að fara á skíði, golf, veiða, ganga á fjöll og svo framvegis. Á þessu ári er stefnan að fara á Hvannadalshnjúk, og verður árið nýtt vel í að undirbúa það, en ég setti mér það áramótaheiti að hjóla að lágmarki 100 kílómetra í hverri viku.“

Þórunn Inga er gift Steinþóri Einarssyni, vörumerkjastjóra hjá Mekka. „Við eigum samtals þrjú börn, eina tengdadóttur og hund. Strákurinn er tvítugur en stelpurnar tólf og átta ára. Þetta er fyrsti hundurinn okkar, hann er eins og hálfs árs og alveg á hámarki gelgjunnar, mjög fjörugur og hefur hann verið einstaklega skemmtilegt fjölskylduverkefni. Það þarf að fara út á hverjum degi þegar þú ert með hund, og ala þá upp sem allir hafa tekið þátt í,“ segir Þórunn Inga.

„Annars erum við ósköp venjuleg fjölskylda og reynum að fara eins oft og hægt er á skíði eða í einhverjar ævintýraferðir. Þarsíðustu áramótum eyddum við til dæmis í Austurríki. Núna erum við að plana næstu fjölskylduferð, erum með stórt glerbox í stofunni þar sem allir fjölskyldumeðlimir geta sett sínar hugmyndir í.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .