Réttarhöld í París yfir níu fyrrverandi yfirmönnum Landsbankans í Lúxemborg hafa vakið athygli í Frakklandi, fyrst og fremst vegna þess að meðal stefnanda er þekktur söngvari þar í landi, Enrico Macias.

Meðal ákærðra eru tveir Íslendingar, þeir Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður gamla Landsbankans og einn af aðaleigendum bankans og Gunnar Thoroddsen, sem var einn af yfirmönnum bankans í Lúxemborg. Franski rannsóknardómarinn Renaud van Ruymbeke gaf út ákæru á hendur þeim snemma árs 2014, en réttarhöldin hófust á þriðjudag að því er Morgunblaðið greinir frá.

Fullt veð en fengu fjórðung greiddan út

Ákæran byggist á tapi 108 húseigenda í Frakklandi og Spáni á fjármálagerningum sem þeir gerðu við bankann, sem byggði á því að þeir fengu lán út á fullt veð í eigum sínum, sem bankinn vildi síðan ganga að í kjölfar gjaldþrots bankans.

Bauð bankinn húseigendum lánin með þeim forsendum að þeir fengju aðeins 25% af lánunum greidd út, en afgangurinn af lánunum færi í fjárfestingarsjóði hvers hagnaður átti að greiða upp lánið að fullu.

Lánuðu margfalt það sem vildi fá

Macias hafði reynt að fá lán að andvirði fimm milljóna evra, eða sem nemur 580 milljónum króna, til að endurgera húseign sína í Saint-Tropez, en enginn franskur banki hafi verið tilbúinn að lána honum.

Hins vegar hafi Landsbankinn lánað honum 35 milljónir evra, eða að andvirði 4 milljarða króna, sem gæfu honum 9 milljónir evra í reiðufé, en afgangurinn færi í fjárfestingarsjóð líkt og áður sagði, og sagðist Macias hafa verið „ofurglaður“ við fregnirnar.

Ekki jól á hverjum degi

Dómarinn Oliver Geron, lýsti þó ákveðnum efasemdum í réttinum og sagði meðal annars að stefnendur hefðu getað gert sjálfum sér þann greiða að sýna vott af „heilbrigðri skynsemi.“ „Að taka lán, án þess að það kosti þig nokkurn skapaðan hlut, er ámóta og það séu jól á hverjum degi.“

Benti lögmaður stefndu á að Macias hefði getað selt aðrar eignir en húseign sína, og benti á 200 þúsund evra sportbíl söngvarans, sem Macias brást reiður við. „Ég er alþjóðleg stjarna,“ hrópaði Macias þá. „Ég á fullan rétt á því að eiga Bentley!“