Óttar Guð­jónsson hefur undanfarið verið í umræðunni vegna tillagna stjórnar Glitni HoldCo en honum ofbauð þau laun sem stjórnarmenn Glitni HoldCo lögðu til á stjórnarfundi fyrir stuttu. Óttar Guðjónsson hefur verið framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga frá árinu 2008.

„Ég er bankamaður. Það eru ekkert allir sem viðurkenna þá stöðu sína en ég er mjög opinn með þetta,“ segir Óttar. Hann hefur á sínum starfsferli starfað hjá fjölda bankastofnana, bæði hér heima og erlendis.

„Ég réð mig síðan til lánasjóðsins sumarið 2008. Ég held að aðalástæðan fyrir því að það hentar mér vel er að ég hef í gegnum nám og störf lært að skilja skuldabréf og afleiður. Lánasjóðurinn er í raun bara tvö skuldabréf, eitt eignamegin og annað skuldamegin, síðan þarf bara að gæta þess að þetta flæði í gegn. Ég held að ég hafi verið heppinn með það að mínir helstu kostir og þekking hafi passað vel fyrir þetta hlutverk.“

Óttar segir að eftir öll þessi ár innan bankakerfisins hafi það verið skrýtið að upplifa fjármálakreppuna utan frá. „Þetta voru mjög skrýtnir tímar. Það var líka mjög sérstakt að þekkja bankakerfið jafn vel og ég gerði, en samt að sjá það hrynja utan frá, að vera ekki inni í húsinu sem hrundi heldur að vera í einu af þessum fáu húsum sem stóðu eftir. Við í Lánasjóðnum fórum í stefnumótum á þessum tíma en niðurstaða hennar var að sú stefna sem fylgt hafði verið hentaði til lengri tíma. Það hentaði ekki að gera einhverjar grundvallar breytingar. Við skoðuðum hvort það myndi henta fyrir sveitarfélögin að taka við t.d. innlánum en okkur þótti það ekki æskilegt. Stefnumótunin skerpti hins vegar á áhættustýringu sjóðsins.“

Hann segir að einn af hornsteinum í áhættustefnu sjóðsins sé að hann geti fræðilega séð, lifað í 100 ár. „Ef það er eitthvað í okkar gerð sem lætur okkur efast um það þá þurfum við að breyta því. Eina hlutverk sjóðsins er að veita lán á hagstæðum kjörum til sveitarfélaga og stofnana í þeirra eigu. Vegna þess markmiðs þá verðum við að tryggja að sjóðurinn geti, tæknilega séð, lifað að eilífu. Það er ánægjuleg hliðarafurð af okkar starfsemi að sveitarfélög fá góð kjör hjá öðrum. Það eru öll sveitarfélög á sömu kjörum hjá okkur, annars gætu sum sveitarfélög verið með töluvert vaxtaálag. Ég held að þetta skipti mjög miklu máli og spari íbúum sveitarfélaga töluverða peninga.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.