Fons, fjárfestingarfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, keypti í fyrradag 6,08% hlut af Gnúpi í FL Group fyrir um 10 milljarða króna og er eftir viðskiptin annar stærsti hluthafinn með 12,21% í félaginu, úr 6,13%. Á móti lækkaði hlutur Gnúps í 11,11% úr 16,33%, samkvæmt leiðréttum tölum frá Kauphöllinni.

Þórður Már Jóhannesson, framkvæmdastjóri Gnúps, kvaðst ekki vilja tjá sig um söluna eða frekar um málefni Gnúps að sinni. Pálmi kveðst telja að um áhugaverðan fjárfestingarkost sé að ræða.

„Ég hef trú á þessu félagi, það er ekki flóknara en það,“sagði Pálmi spurður um ástæður kaupanna nú. „Einu sinni höfðu fjárfestar almennt trú á því og þá fór gengið upp í 32, en margt hefur breyst varðandi ytri aðstæður síðan þá. En margt getur líka breyst aftur.“

Viðskiptin fóru fram á genginu 12,1, en það var um 11,5 þegar viðskiptum lauk í gær. Þegar Pálmi keypti upphaflega í félaginu viku af desember sl. var gengi viðskiptanna 16,1 og kaupverðið 10,2 milljarðar króna. Miðað við kaupgengið hefur sá hlutur rýrnað í verði um tæpa 2,9 milljarða síðan þá samfara lækkandi gengi hlutabréfa í FL Group. Miðað við kaupgengið við viðskiptin í fyrradag er heildareign Pálma í FL Group um 17,7 milljarða virði, en tæplega 17 milljarða miðað við markaðsgengið í gær.

Eftir að Fons jók hlut sinn er Oddaflug B.V., félag Hannesar Smárasonar fyrrverandi forstjóra FL Group, orðið þriðji stærsti eigandinn með 10,86% hlut. Baugur Group er stærsti hluthafi FL Group, með 25.29% Samanlagður hlutur Baugs og Fons er því rétt rúm 36% en að viðbættum hlut Hannesar eru þrír stærstu hluthafarnir með alls um 47% hlut.

Pálmi fékk sæti í stjórn FL Group eftir kaup hans í desember. Aðspurður um hvort til greina komi að taka FL Group af markaði í ljósi hríðlækkandi hlutabréfaverðs var svar Pálma: „No comment. Ég vil ekki svara þessari spurningu. Við skoðum bara alla möguleika."

Spurður hvort ört lækkandi gengi hlutabréfa í FL Group sé ekki áhyggjuefni, kvaðst Pálmi gera ráð fyrir að flestir eða allir fjárfestar hefðu áhyggjur af stöðu mála á markaði. „En hlutabréfaviðskipti eru áhættusöm eins og þeir sem kaupa hlutabréf ættu að vita og þeir sem eru að hugsa um að kaupa hlutabréf ættu að kynna sér," segir hann.