Björgólfur Thor Björgólfsson fór mikinn á árunum eftir að hafa selt bjórverksmiðjuna Bravo í Pétursborg en í ár eru tuttugu ár frá sölunni sem var ein sú stærsta í sögu íslensk viðskiptalífs og lögðu grunnin að miklum auðæfum Björgólfs.

Björgólfur lagði líklega hvað mest undir þegar fjárfestingafélag hans Novator gerði yfirtökutilboð í allt hlutafé Actavis í maí 2007 sem næstum allir hluthafar samþykktu. Um var að ræða viðskipti sem metin voru á um 176 milljarða króna á þeim tíma eða um 5,3 milljarða evra. Af kaupverðinu nam lánsfé 4,1 milljarði evra en aðallánveitandi var Deutsche Bank. Við kaupin var Actavis afskráð af hlutabréfamarkaði.

Gríðarlegt tap 2008

Í bankahruninu tapaði Björgólfur Thor hins vegar gríðarlegum fjárhæðum og þá reyndust skuldirnar vegna yfirtökunnar á Actavis þungur baggi, sér í lagi við Deutsche Bank.

Forbes telur að Björgólfur hafi tapað 2,5 milljörðum Bandaríkjadala eða 333 milljörðum króna á milli áranna 2008 og 2009. Þessar tölur þarf þó að taka með fyrirvara því erfitt er að reikna auð manna út með nákvæmum hætti.

Var nærri gjaldþroti

Viðskiptablaðið tók viðtal við Björgólf Thor í júlí 2010 þar sem hann segist hafa átt verulega fjármuni þrátt fyrir mikið tap. „Ég get sagt hreint út, að ég hefði getað látið banka ganga að mér og lýst mig gjaldþrota, en haldið háum fjárhæðum í sjóðum. Ég hefði getað lifað áfram í vellystingum á því fé. En þá hefði ég verið á stöðugum flótta frá samfélaginu.“

Viðskiptablaðið ræddi árið 2013 við samstarfsmenn Björgólfs, þá Andra Sveinsson og Birgi Má Ragnarson, „hægri og vinstri“ hendur Björgólfs. Þeir sáu um samningagerðina við bankana, en Deutsche Bank var þeirra stærstur. Í kjölfar þeirra urðu þeir Andri og Birgir Már meðeigendur Björgólfs í Novator. Nefnt hefur verið að þeir hafi eignast 10-15% hlut samanlagt

Björgólfur Thor náði hins vegar vopnum sínum á ný og er í dag aðmati Forbes 1.238 auðugasti maður heims.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.