Brynjar Níelsson hyggst ekki gefa kost á sér í komandi Alþingiskosningum eftir niðurstöðu prófkjörs Sjálfstæðiflokksins í Reykjavík í gær. Brynjar sóttist eftir 2. sæti en endaði í 5. sæti.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra endaði efstur í prófkjörinu, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í öðru sæti, Dilja Mist Einarsdóttir, lögmaður og aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, í þriðja sæti og Hildur Sverrisdóttir varaþingmaður og aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í fjórða sæti.

Brynjar þakkar fyrir sig í færslu á Facebook og segir niðurstöðuna töluverð vonbrigði en skilaboðin séu skýr. Þá segist hann trúa því að flokknum muni vegna vel í komandi kosningum.