Ég man þig, hefur selst út um allan heim á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes. Myndin hefur verið seld til Norður-Ameríku (IFC Films), Frakklands (Swift), Japans (Gaga), Rómönsku Ameríku (California Filmes) og Víetnam (Green Media). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá TrustNordisk.

„Sú staðreynd að Ég man þig hefur verið seld til landa í hverri einustu heimsálfu er skýr vottur um að myndin höfðar til fólks um allan heim og er afar vel gerð. Við erum viss um að áhorfendur eigi eftir að taka myndinni vel á ólíkum svæðum,” segir Susan Wendt, forstjóri alþjóðlegrar sölu- og markaðsdeildar hjá TrustNordisk.

Áður hefur myndin verið seld til STUDIOCANAL (Bretland og Írland), Telemünchen (þýskumælandi svæði), Euromedia (Tyrkland) og Vertigo (Ungverjaland).

Ég man þig er önnur kvikmynd Óskars Þórs Axelssonar í fullri lengd. Fyrsta mynd hans, glæpahrollvekjan Svartur á leik, 2013, sló í gegn á alþjóðavísu og hlaut lof bæði frá gagnrýnendum og á kvikmyndahátíðum. Ég man þig byggir á metsölubók eftir glæpasagnahöfundinn Yrsu Sigurðardóttur og í aðalhlutverkum eru meðal annarra Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson.

Framleiðendur myndarinnar Ég man þig eru Sigurjón Sighvatsson, Þórir Snær Sigurjónsson, Skúli Malmquist og Chris Briggs hjá ZikZak í samvinnu við Ape & Björn Norway (Ruben Thirkildsen) and Maze Pictures í Þýskalandi með stuðningi frá  Kvikmyndamiðstöð Íslands og Norsku kvikmyndamiðstöðinni.