„Maður ver ári í að þróa einhverja vöru en svo kemur í ljós fyrstu tvær vikurnar hvort þetta er að fara að ganga upp eða ekki. Ef leikur eða smáforrit gengur illa fyrstu tvær vikurnar þá er í raun ekkert að fara að gerast til að bæta það. Þróunin er svo hröð að það kemur bara eitthvað annað í staðinn.”

Þetta segir Þorsteinn Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi íslenska tölvuleikjaframleiðandans Plain Vanilla Games í ítarlegu Viðtali við Viðskiptablaðið.

Þarna talar Þorsteinn af reynslu því fyrsta vara fyrirtækisins var leikurinn The Moogies sem kom á markað haustið 2011. Samningar náðust við stórfyrirtækið Chillingo, sem gaf út Angry Birds, um dreifingu á leiknum og því voru miklar vonir bundnar við útgáfu hans.

Þegar leikurinn kom út í nóvember 2011 fór hann beint á forsíðuna í App Store sem er sá staður þar sem fólk sækir smáforrit og leiki í Apple tæki. Salan fyrstu vikuna gekk vel en um leið og leikurinn fór af forsíðu App Store hrundi salan og ljóst var að leikurinn yrði flopp, eins og Þorsteinn kemst sjálfur að orði.

„Við sáum mjög fljótt að þetta væri því ekki að fara að færa okkur þær tekjur sem við þyrftum til að greiða upp skuldir og hvað þá til að þróa næsta verkefni,“ segir Þorsteinn. Moogies var engu að síður valið besta smáforritið á Íslandi og vinsæalsti barnaleikurinn á Norðurlöndum.

„Ég reyndi að setja upp bros þó að ég vissi að þetta væri ekki að fara að ganga upp,” segir Þorsteinn aðspurður um þennan tíma.

„Þetta leit allt mjög vel út - nema hvað að við vorum ekki að fá neinn pening.”

Í dag er staða Plain Vanilla Games gjörbreytt, fyrirtækið hefur fengið hundruð milljóna hlutafé frá fjórum bandarískum fjárfestingasjóðum og einum kínverskum. Það fé verður nýtt til frekari markaðssóknar og þróunar á QuizUp forritinu, sem er nýjasta afurðin frá Plain Vanilla.

---

Þorsteinn Baldur er sem fyrr segir í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar fer hann yfir atburðarásina frá því að félagið var stofnað í lok árs 2010, hvernig því tókst að rífa sig upp úr vonlausri stöðu og ná í erlent fjármagn til að þróa næsta verkefni; hvernig Þorsteinn sér mögulega framtíð Plain Vanilla fyrir sér og margt fleira. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.