Íslandssjóðir, elsta sjóðstýringarfyrirtæki á Íslandi, þar sem Sigurður B. Stefánsson hefur nú tekið sæti í stjórn, voru stofnaðir út úr VÍB á sínum tíma, en þar var hann framkvæmdastjóri frá stofnun árið 1986.

Verðbréfafyrirtækið varð svo seinna að eignastýringu Íslandsbanka en Sigurður flutti síðar yfir til Íslandssjóða þar sem hann rak vogunarsjóð um tíma. Eftir nokkra fjarveru er hann því nú kominn aftur heim eins og framkvæmdastjóri Íslandssjóða kallaði það í tilefni þess að Sigurður hefur tekið sæti í stjórn félagsins.

„Þetta felur í sér hefðbundin stjórnarstörf og þá ábyrgð sem þeim fylgja,“ segir Sigurður sem játar að hafa öðlast ágætis yfirsýn á sínum ferli. „Já, ég á að minnsta kosti reynslu og langan starfsaldur að baki.“

Sigurður hefur síðustu ár starfað við eigin rekstur samhliða öðrum störfum en árið 2015 hætti hann störfum fyrir Landsbankann.
„Við Svandís Ríkharðsdóttir stofnuðum eigið fyrirtæki, Rose Invest árið 2009 eftir að við hættum með vogunarsjóðinn, en Landsbankinn keypti það fyrirtæki árið 2011 og ber það núna heitið Landsbréf,“ segir Sigurður.

„Vinnan er aðaláhugamálið, en síðustu fimmtán árin hef ég aðallega verið að vinna við alþjóðlega hlutabréfamarkaðinn, og því fylgir heilmikil greiningarvinna og yfirlega.“

Sigurður fór ungur til Bretlands í nám og var þar í áratug sem hafði mikil áhrif á hann. „Ég er verkfræðingur frá Háskólanum í Edinborg, en tók síðan meistaranám í stærðfræðilegri hagfræði og hagmælingum frá London School of Economics og síðan doktorspróf í hagfræði frá Háskólanum í Essex,“ segir Sigurður.

„Jú, það voru mikil viðbrigði að fara út en þá var ég tvítugur að aldri, en það voru ekki minni viðbrigði að koma heim aftur. Þá var maður kominn vel inn í breskt samfélag og þjóðlíf sem var á margan hátt mjög ólíkt því sem var hér. Ég saknaði breskrar menningar, en þetta var löngu fyrir tíma internetsins. Þar eru margar fastar hefðir og menningin er að mörgu leyti á mjög háu stigi, til dæmis í fjölmiðlun sem á sér þar djúpar rætur og er til fyrirmyndar. Ég saknaði alls lífsins og umræðunnar sem var þá í bresku samfélagi.“

Þegar Sigurður er ekki að vinna nýtur hann þess að ferðast og eyða tíma með fjölskyldunni, sonunum tveimur og barnabörnunum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .