*

fimmtudagur, 24. september 2020
Fólk 19. febrúar 2017 19:20

Ég fór suður

Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður, hefur fært sig frá H:N Markaðssamskiptum yfir til auglýsingastofunnar Árnasynir.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Ég er að upplagi texta- og hugmyndasmiður og kem ég að allri hugmyndavinnu héðan, sem er mjög fjölbreytt og skemmtilegt starf,“ segir Kristján, en hann segist hafa fengist við ýmislegt á sinni starfsævi.

„Bækur og tónlist hafa verið helsta undirstaða þess sem ég hef verið að fást við síðustu tuttugu ár. Ég starfaði aðeins við markaðsmál hjá Pennanum en fyrir tveimur árum skipti ég um starfsvettvang þegar ég hætti sem rekstrarstjóri Máls og menningar og kom þá inn í auglýsingabransann. Ég lít þó svo á að ég sé í svipuðu þjónustuhlutverki í öllum þessum störfum.“

Kristján er frá Hnífsdal sem er á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og fór fljótlega að starfa við verslun og tónlistaráhugamálið.

„Mitt fyrsta verslunarstarf var að reka hljómplötuverslun sem hét Hljómar í verslunarmiðstöðinni Ljóninu á Ísafirði, en þá var ég ekki orðinn tvítugur,“ segir Kristján sem trommar með hljómsveitum eins og Prins Póló, Reykjavík!, Dr. Gunna og Geirfuglunum.

„Ég fékk einhvern ægilegan áhuga á tónlist og hef ekki læknast af þeirri bakteríu, enda lít ég svo á að tónlistin komi í staðinn fyrir að fara í stangveiði eða golf. Mér finnst ekkert gaman að skjóta dýr eða eitthvað svoleiðis, en ég hef gaman af því að sveifla kjuðum með vinum mínum.“

Kristján Freyr og kona hans sem er frá Ísafirði búa ásamt börnum sínum tveimur í Reykjavík, en hann hefur í mörg ár komið að tónlistarhátíð alþýðunnar á Ísafirði, Aldrei fór ég suður, sem haldin er um páskana ár hvert.

„Ég hef spilað þarna á hátíðinni, en svo fór ég að vinna með þessum félagsskap sem stendur að henni og hef verið með puttana í því æ síðan, frá árinu 2005. Við erum 20 manns í góðum hóp en núna tók ég að mér að stöðu rokkstjóra sem hreinlega stýrir verkefninu,“ segir Kirstján sem segir flesta í hópnum enn búa fyrir vestan.

„Ég fór vissulega suður, árið 1998, ég saup hveljur þegar ég áttaði mig á að ég hef búið lengur í Reykjavík en heima í Hnífsdal. En við höfum gaman að því að búa til góða hátíð og boða fólk á Vestfirði og erum við mjög stolt af því að við tvöföldum íbúatöluna á hverju ári af gestum.“

Kristján segir hátíðina hafa verið kærkomna viðbót við skíðavikuna á Ísafirði sem haldin hefur verið um páskana í áttatíu ár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.