Gunnar Valur Gíslason forstjóri Eyktar skorar á fjármögnunaraðila, eins og lífeyrissjóðina að tryggja fé á ásættanlegum kjörum til opinberra framkvæmda.

„Ég vil skora á sterka fjármögnunaraðila, eins og lífeyrissjóðina, að endurskoða afstöðu sína til traustra lántakenda eins og Reykjavíkurborgar og bjóða borginni ásættanleg kjör hið fyrsta svo að boðaðar framkvæmdir á vegum borgarinnar geti farið af stað. Það þurfa allir að taka þátt í því að halda atvinnulífinu gangandi."

Gunnar segir að þyngslin sem nú séu í öllum byggingariðnaðinum hafi sín áhrif á þeirra fyrirtæki eins og aðra þó verkefnastaðan hjá Eykt sé nokkuð góð fram á haustið og fyrirtækið sé vel á vegi statt fjárhagslega. Hann segir að víða strandi á fjármögnun um þessar mundir, hvort sem um er að ræða öfluga opinbera aðila eða einkaaðila almennt.

„Ég vek athygli á því að það geta liðið níu til 12 mánuðir frá því að tekin er ákvörðun um að fara í verkefni þar til framkvæmdir hefjast, því fyrst þarf að hanna mannvirkin. Þannig að það þarf að gæta sín á því að stöðva ekki hönnun mannvirkja sem fyrirhugað er að ráðast í, eins og gert hefur verið í miklum mæli á undanförnum mánuðum."   Sem stendur starfa um 100 manns hjá Eykt auk fjölmargra starfsmanna undirverktaka, en þeir sem hafa látið af störfum hjá fyrirtækinu á liðnum mánuðum eru einkum erlendir starfsmenn sem snúið hafa til síns heima.