Björgólfur Jóhannsson ræðir stöðu og framtíðarhorfur í ferðaþjónustu í viðtali í Frjálsri verslun en segir einnig frá starfslokum sínum hjá Icelandair . Hann sagði starfi sínu lausu á afmælisdeginum sínum, þann 28. ágúst síðastliðinn, en þá hafði hann gegnt því í tæp ellefu ár.

„Það var vissulega erfitt," segir Björgólfur. „Ég vissi að það yrði söknuður en líka að ég yrði ekki eilífur þarna. Ég átti frábær ár hjá Icelandair en líka að mörgu leyti erfið. Á seinni hlutanum var þetta farið að taka aðeins í. Ég gerð breytingar á félaginu í nóvember í fyrra, þar sem við sameinuðum í raun Icelandair og Icelandair Group . Ég viðurkenni að ég gerði ákveðin mistök þar. Ég hefði átt að ganga lengra.

Ákvörðunin um að hætta var mjög afslöppuð og vel ígrunduð ákvörðun af minni hálfu og þetta var rétt ákvörðun. Ég átta mig á því að þetta var óheppilegur tími og eðlilegt að það kæmu fram vangaveltur um það að mér hefði verið settur stóllinn fyrir dyrnar en það var ekki þannig. Ég tók þessa ákvörðun einn og óstuddur. Sá eini sem vissi af þessu fyrir stjórnarfundinn í lok ágúst var formaður stjórnarinnar. Þegar ég svo tilkynnti þetta á fundinum þá held ég að ég geti fullyrt að ákvörðunin hafi komið öllum hinum stjórnarmönnunum á óvart. Ég var fyrst og síðast að hugsa um félagið, það er alltaf stærra en einstaklingurinn.

Ég var búinn að velta því fyrir mér í nokkurn tíma hvort það væri kominn tími til að stíga til hliðar. Ég hef oft haldið því fram að æðstu stjórnendur eigi ekki að vera lengur en sjö til tíu ár í forsvari fyrir félög. Það sé hollt að skipta reglulega um menn í brúnni — fá nýtt blóð og nýtt líf.

Þegar ég var ráðinn á haustmánuðum 2007 var félagið ekki í góðri stöðu og síðan fengum við hrunið ofan í allt saman. Þegar ég lít aftur þá stend ég stoltur frá borði. Þeir hluthafar sem fjárfestu í félaginu árið 2011 eru búnir að fá það endurgjald greitt í arði og eiga samt hlutinn.

Ég er orðinn 63 ára gamall, sem þýðir að það eru fjögur ár þar til ég fer á eftirlaun. Ég er mjög sáttur við það. Í dag er ég stjórnarformaður Íslandsstofu en einnig sit ég í stjórn Festis og útgerðarfélagsins Gjögurs. Það er nóg að gera hjá mér og ég stefni ekki að því að taka að mér eitthvað fast starf. Mér líður vel núna."

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .