Frumtak ehf hefur ráðið Dr. Eggert Claessen, viðskiptafræðing, til að gegna stöðu framkvæmdastjóra félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Frumtak ehf er rekstraraðili samlagssjóðsins Frumtaks Slhf sem er í eigu stóru bankanna þriggja,Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings banka, stærstu lífeyrissjóða landsins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Eggert hefur samkvæmt tilkynningunni áralanga reynslu af stofnun og rekstri sprota og frumkvöðla¬fyrirtækja, sérstaklega á sviði upplýsingatækni.

Eggert var  m.a. einn af stofnendum Tölvumiðlunar ehf og framkvæmdastjóri þess 1990 – 2006,  fjármálastjóri eMR 2000 – 2002, stjórnarmaður í EJS UK 2004 – 2008 og stjórnarformaður GoPro ehf frá 2003.

Eggert var einnig eigandi og fjármálastjóri Tölvuþekkingar ehf frá 1992 til ársins 2000 þegar það var selt Eastman Kodak í Bandaríkjunum. Hann hefur unnið mikið að málefnum iðnaðarins og gegnt fjölda trúnaðarstarfa, nú síðast sem formaður Samtaka Upplýsinga¬tæknifyrirtækja.  Hann hefur einnig unnið að hagnýtingu þekkingar¬verðmæta og tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum á því sviði.  Eggert hefur verið stundakennari hjá Háskóla Íslands og nú Háskólanum í Reykjavík.

Eggert lauk doktorsprófi í viðskiptafræði á þessu ári frá Brunel University-Henley Management College í Bretlandi.  Eggert er kvæntur Sigrúnu Kjartansdóttur, framkvæmda¬stjóra hjá Glitni.

Í tilkynningunni kemur fram að Frumtak fjárfestir í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar og verður fjárfestingargeta sjóðsins að lágmarki 4,6 milljarðar króna.

„Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir,“ segir í tilkynningunni.