Eggert Magnússon, formaður Knattspyrnusambands Íslands, fundaði með stjórnendum breska knattspyrnuliðsins West Ham í gær, samkvæmt heimildum dagblaðsins The Independent.

Blaðið segir í frétt í dag að Eggert hafi lagt fram 75 milljón punda (9,7 milljarða króna) kauptilboð sitt aftur í gær og samþykkt að taka yfir skuldir að virði 22,5 milljónir punda. Í fréttinni segir að Eggert muni leggja fram aukið eigið fé til að fjámagna kaupin, en stjórnendur West Ham höfðu áhyggjur af aukinni skuldsetningu félagins.

The Independent segir að Björgólfur Guðmundsson muni fjármagna kauptilboð Eggerts.

Athafnamaðurinn Kia Joorabchian hefur boðið 80 milljónir punda í félagið og mun stjórn West Ham hittast í dag til að ákveða hver kaupandinn verður, samkvæmt fréttum í breskum fjölmiðlum.