Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Eggert Guðmundsson, forstjóri N1, spurningum Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið? Þetta var afdrifaríkt ár á mínum bæ, þar sem ég kvaddi HB Granda og gekk til liðs við N1. Ég hef þó fjarri því sagt skilið við sjávarútveginn, því stór hluti viðskipta N1 er einmitt við sjávarútvegsfyrirtæki landið um kring. Við höfum þegar gert talsverðar breytingar, t.d. endurvakið Bílanaust í breyttri mynd og breytt skipulagi N1 í átt að meiri fókus á viðskiptavinina. Við horfum því bjartsýn fram á veginn og munum skrá félagið á markað á næsta ári.

Hvað var vel gert? Margt hefur gengið eftir í endurskipulagningu fyrirtækja og stór fyrirtæki hafa verið skráð á markað. Þetta er vonandi vísir að því sem verða vill. Þá hefur kynning Íslands sem áfangastaðar ferðamanna gengið vel og skilað miklum gjaldeyristekjum.

Hvað var slæmt? Erfiðleikar í sjávarútvegi hafa haft mikil áhrif á þjóðfélagið í heild. Þessu hafa valdið þungir markaðir, í kjölfar kreppu í helstu viðskiptalöndum, sem og heimatilbúinn vandi í stjórnmálunum. Nú þurfa allir að leggjast á eitt um að auka sem mest verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Þörf er á mun meiri samvinnu á milli stjórnvalda, atvinnulífs og annarra þátttakenda í efnahagslífinu. Verkefni atvinnuuppbyggingarinnar eru svo stórkostleg að þau verða eingöngu leyst með samhug og samvinnu.