Eggert Benedikt Guðmundsson hefur látið af störfum sem forstöðumaður Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Eggert, sem er fyrrum forstjóri HB Granda, N1 og eTactica, vildi ekki segja til um hvort hann sé búinn að taka að sér annað verkefni.

Eggert kom að undirbúningi Grænvangs á sínum tíma sem ráðgjafi og hefur verið forstöðumaður vettvangsins frá því að hann tók formlega til starfa í byrjun nóvember 2019.

„Grænvangur er orðinn tveggja ára gamall og kominn á góða siglingu - búið er að setja í gang flest þau verkefni sem okkur var falið. Það sem er mikilvægast er að búið er að tryggja fjármögnun Grænvangs til næstu fimm ára. Það voru því ákveðin tímamót í sögu vettvangsins sem ég ákvað að nýta og skipta um vígvöll,“ segir Eggert í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að tíminn sinn hjá Grænvangi hafi verið mjög skemmtilegur og nefnir sérstaklega ánægjulegt að eiga í samstarfi við ólíka aðila - stjórnvöld, atvinnulífið og háskólasamfélagið – til að kynna íslenskar grænar lausnir og framlag Íslands í loftslagsmálum.

„Öll vildum við leggja hönd á plóg í þessu sameiginlega viðfangsefni sem eru loftslagsmálin. Það var bæði mjög gefandi og hvetjandi að finna löngun fólks til að takast á við verkefnin, ekki bara tala um þau.“