Eggert Skúlason, ritstjóri DV, mun hætta störfum sem ritstjóri eftir að DV kemur út á morgun. Starfslokin eru að hans sögn sameiginleg ákvörðun hans og eigenda Vefpressunnar sem er útgáfufélag DV. Starfsfólki blaðsins var sagt frá þessu í morgun, en það er mbl.is sem segir frá þessu.

Hann mun fara í sumarfrí að störfum loknum og mun svo koma til með að vinna að verkefnum fyrir útgáfuna - þó segir hann óvíst hvað það verður nákvæmlega sem tekur við í framhaldinu. Hann segist vera stoltur af vinnu sinni á DV þótt sumum hafi ekki líkað breytingarnar sem með honum fylgdu.

Eggert segir að hann og starfsfólk DV hafi alla tíð unnið eftir bestu sannfæringu og að á þeim tíma sem hann starfaði sem ritstjóri hafi blaðið ekki fengið á sig málshöfðun. „Sumir kalla það slöpp vinnubrögð,” er haft eftir Eggert, „en ég segi að við höfum vandað okkur.”