Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, spilar á gítar í tveimur hljómsveitum. Önnur heitir Flóttamenn og er skipuð Íslendingum sem bjuggu á sama tíma í Kaliforníu í Bandaríkjunum á árunum 2000 til 2004. Hin er innanhússhljómsveit hjá N1 sem heitir Heavy Metan.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í viðtali við Eggert á vefmiðlinum Spyr.is .

Eggert er í viðtalinu m.a. spurður að því hvort hann hafi einhver áhugamál. Hann segist ekki vera dellukarl en fikti við eitt og annað.

Þá hef ég nokkrum sinnum byrjað að spila golf, en hætt jafnoft.  Ég veit ekki alveg hvernig staðan er núna, en það kemur í ljós með vorinu.  Ég var allmikið í hestum í gamla daga og hef nýverið endurnýjað kynnin við þau göfugu dýr.  Við keyptum okkur hryssu í haust og í samvinnu við nafna minn og frænda erum við komin með annan fótinn inn í hestamennskuna.  Annars finnst mér einna skemmtilegast að ferðast og ganga um fjöll, þótt ég sinni því áhugamáli heldur ekki sem skyldi.

Lýsir gleði sinni í limru

Þá er Eggert spurður að því hvernig tilfinning það sé að fylgjast með barninu sínu í söngvakeppninni. Eins og áður hefur komið fram söng dóttir hans, Unnur Eggertsdóttir lagið Ég syng! í undankeppninni á dögunum.

Vb.is hefur áður greint frá því að Eggert hafi verið mjög ánægður þegar ljóst var að dóttir hans komst í undankeppnina og stökk upp á sviðið um leið og hann mátti.

Í viðtalinu á spyr.is svarar Eggert með limru:

Ég kafnaði næstum af kæti,

og kunni mér hreint ekki læti,

þegar talning var öll,

og telpan mín snjöll,

sér tryggt hafði úrslitasæti.