Eggert Magnússon, nýr stjórnarformaður breska knattspyrnufélagins West Ham United, hefur samþykkt að félagið geri tilraun til að kaupa David Beckham, fyrrverandi fyrirliða enska landsliðsins og leikmann Real Madrid, segir í frétt The Sunday Mirror.

Eggert og Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, tóku yfir breska knattspyrnufélagið í síðustu viku fyrir 85 milljónir punda, sem samsvarar 11,5 milljörðum króna, auk skulda.

Alan Pardew hefur um 20 milljónir punda til að eyða til leikmannakaupa. Beckham er samningsbundinn Real Madrid, en reiknað er með að West Ham hafi samband við Beckham í janúar.

Beckham ólst upp í Leystonstone, sem er aðeins steinsnar frá Upton Park, heimavelli West Ham.