Egill Árnason, eitt af þekktari fyrirtækjum landsins, er nú kominn í hendur nýrra eigenda. Í tilkynningu nýrra eigenda kemur fram að  vegna markaðsaðstæðna verði áherslubreytingar á vöruúrvali verslunarinnar ásamt kostnaðaraðhaldi til að tryggja reksturinn til framtíðar.

Gert er ráð fyrir að þessi fjárfesting skili 5–20 störfum, en ljóst er að markaðsaðstæður spila stórt hlutverk um hversu mörg störf skapast til framtíðar segir í tilkynningu.

Samkomulag um sölu vörumerkisins, viðskiptavildar og reksturs Egils Árnasonar var gert við einkahlutafélag í eigu feðganna Einars Gottskálkssonar og Ásgeirs Einarssonar. Er það markmið nýrra eigenda að uppbygging félagsins verði með sem minnstri aðkomu fjármálastofnana og áhrif ójafnvægis í efnahagsmálum því takmarkað að miklu leyti. Einar Gottskálksson er með yfir 30 ára reynslu af viðskiptum á sama markaði og Egill Árnason starfar á. Hann hefur komið að fjölmörgum fyrirtækjum á Íslandi með góðum árangri og má þar nefna Harðviðarval, Sindra-Stál, Hringrás og Gólflausnir-Malland.

Ásgeir Einarsson starfaði sem framkvæmdastjóri Sindra fram til mars 2009. Ásgeir sótti menntun sína til Bretlands og lauk þar B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og M.Sc.-gráðu í Service Management. Auk þess hefur Ásgeir gegnt fjölmörgum ábyrgðarstöðum hjá íslenskum fyrirtækjum.

Í tilkynningu er bent á að Einar og Ásgeir koma úr fjölskyldunni sem rekið hefur Harðviðarval síðastliðin 30 ár. Nýir eigendur stefna að endurskipulagningu rekstrarins eins hratt og kostur er og munu í framhaldi opna aftur verslun Egils Árnasonar í Ármúla 8. Gert er ráð fyrir að þetta ferli taki stuttan tíma og að reksturinn verðir starfhæfur á næstu vikum.