Dagskrárgerðarmaðurinn Egill Eðvarðsson hefur gengið með það í maganum í áratug að koma spjallþáttum Hermanns Gunnarssonar aftur á skjáinn og varpað hugmyndinni fram tvívegis án þess að nokkuð gerðist. Það var í þriðja skiptið sem hugmyndin fékk græna ljósið hjá dagskrárstjóra RÚV. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun mun RÚV sýna tólf þætti með völdu efni úr þáttunum Á tali hjá Hemma í haust í stað annarrar seríu Dans, dans, dans. Þórhallur Gunnarsson stýrir þættinum og mun Hermann sitja með honum í settinu. Búast má við að gestir sem voru í þáttum Hermanns á árum áður kíki í heimsókn.

Egill segir það vel til fundið að sýna þátt sem þennan enda 25 ár síðan fyrsti þáttur Hermanns fór í loftið á RÚV. Hann bendir á að þótt þættirnir séu orðnir þetta gamlir þá séu þeir mjög frambærilegir og þar að finna mikið af áhugaverðu efni, svo sem börnum sem tjá skoðanir sínar um daginn og veginn og ungu fólki sem var að stíga sín fyrstu spor á leiklistarsviðinu en er þekkt í sínu fagi í dag. Þá stigu nokkrar af þekktum hljómsveitum á stokk í þáttunum.

Egill  tók stikkprufu af þáttunum þegar hann fékk hugmyndina fyrir áratug og segir það hafa komið sér á óvart að innan um hafi verið ljómandi skemmtilegt og frambærilegt efni. Hann er nú að fara yfir þættina á nýjan leik og er búinn að skoða 90 þætti af þeim 115 sem Hermann gerði á árunum 1987 til 1997.

Hann segir mikið sótt í gamalt efni í smiðju RÚV og það oftar en ekki sama efnið. Á sama tíma hafi það efni sem varð til í spjallþáttum Hermanns setið á hakanum.

„Ég kann enga skýringu á því en tiltölulega lítið hefur verið sótt í Hemma-bankann,“ segir hann í samtali við vb.is.

Þeir sem ekki geta beðið eftir því að sjá Hermann á skjánum á nýjan leik geta smellt á hlekkinn og séð einn þátt af Á tali hjá Hemma Gunn frá árinu 1992.

http://www.youtube.com/watch?v=usHHE6-3SyU&feature=related