Að sögn Egils Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Brimborgar, gera þeir ráð fyrir góðu ári 2010 í samanburði við síðustu tvö ár og reika með um 4500 bíla sölu á bílamarkaðnum í heild. ,,Þar vegur þungt sala til bílaleiga en fyrirtæki og almenningur munu koma aftur inn á markaðinn þegar fer að nálgast vorið og reiknar Brimborg með að afhenda viðskiptavinum sínum ekki færri en 300-400 bíla og jafnvel allt að 600 bíla á árinu."

,,Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt þá dugar lægri talan vel til að halda rekstrinum í góðu horfi miðað við aðstæður og takast á við okkar keppinauta sem flestir hverjir eru dyggilega studdir af ríkisbönkunum. En það verður bara skemmtilegt og áhugavert og fer í reynslubankann," segir Egill.

Síðasta ár það lélegasta síðan 1976

Nýskráningar bíla á síðasta ári voru mjög fáar eða aðeins um 2337 nýir bílar og 256 notaðir bílar eða 2593 í heildina og er það minni sala en árið 1976. Egill bendir á að í þessu samhengi sé rétt að nefna að innflutningur bíla til landsins var í raun enn minni og nánast enginn því flestir þeirra bíla sem voru nýskráðir höfðu verið fluttir inn 2007 og 2008 en stóðu á hafnarbakkanum og höfðu ekki selst. ,,Því má með réttu segi að nýr innflutningur var nánast enginn. Strax eftir hrun setti Brimborg á fót þriggja manna útflutningshóp sem lagðiáherslu á að losa allan lager með útflutningi. Ástæðan var sú að fyrirsjáanlegt var að eftirspurn yrði nánast engin og vaxtakostnaður yrði gríðarlegur við að halda úti þeim lager af um 250 bílum sem við áttum við hrun og um leið lögðum við gríðarlega áherslu á að standa í skilum við alla okkar innlendu og erlendu birgja. Allt gekk þetta eftir og gerir stöðu okkar mjög sterka í dag," sagði Egill.