*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 18. október 2014 15:10

Egill í Brimborg: Sigur í sparakstri tífaldaði söluna

Jóhann J. Jóhannsson, aðaleigandi og stofnandi Brimborgar, hóf innflutning á Daihatsu bílum árið 1977.

Jóhannes Stefánsson
vb.is

Það er óhætt að fullyrða að fáir hér á landi hafa jafn mikla reynslu af bílum og öllu því sem þeim viðkemur og Egill Jóhannsson,forstjóri Brimborgar. „Ég er sonur aðaleigandans, byrjaði í raun mjög snemma,“ segir Egill.

„Ég hef verið viðloðandi þetta frá svona tíu ára aldri. Byrjaði á sópnum og síðan í bílaþrifum. Síðan hef ég unnið við bílasölu, tollafgreiðslu, varahluti, á lager og í markaðsmálum. Líklega eina sem ég hef ekki gert er að gera við bílana.“ Egill tók við sem framkvæmdastjóri Brimborgar árið 1999.

Sigur í sparakstri tífaldaði söluna

Pabbi Egils, Jóhann J. Jóhannsson, aðaleigandi og stofnandi Brimborgar, hóf innflutning á Daihatsu bílum árið 1977. „Fyrsta árið seldum við um 60 bíla,“ segir Egill.„Við vorum fyrstir í Evrópu til að selja Daihatsu. Árið 1978 seldum við 90 bíla og ári seinna rúmlega tífaldaðist salan þegar við seldum 917 bíla.“ Skýringin er orkukreppan síðari.

Jóhann hafði tekið þátt í árlegri sparaksturskeppni á nýjum Daihatsu Charade og borið sigur úr býtum „Þessi bíll var með fyrstu þriggja strokka vélina og fyrsti framdrifni smábíllinn. Þeir voru rosalega framarlega á þessum tíma. Eldsneytisverð var í hámarki, fjölmiðlar fjölluðu um sigurinn og salan bara sprakk út á Charade. En orkukreppan hafði líka þau áhrif að bílasala í Evrópu hrundi og tækifæri gafst að kaupa óseldan lager, 700 Daihatsu bíla frá Hollandi, á hagstæðu verði sem allir seldust hér á landi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.