Félag Egils Einarssonar einakþjálfara og fjölmiðlamanns, er með hæstu afkomuna í flokknum önnur heilsutengd starfsemi í úttekt Viðskiptablaðsins á þeim samlags- og sameignarfélög sem skiluðu hæstri afkomu á síðasta ári.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í vikunni nær til yfir 350 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra flokkað niður í níu atvinnugreinar. Þar á meðal annars finna afkomu fjölda félaga, lækna, tannlækna, lögfræðistofa og endurskoðenda.

Áætlaður hagnaður Fjarþjálfunar slf. eftir skatta nam um 17 milljónum króna á síðasta ári og launagreiðslur um fjórum milljónum króna. Fjarlægðar- og fjöldatakmarkanir voru í gildi á líkamsræktarstöðvum stóran hluta ársins vegna heimsfaraldursins.

Þá er Thorisdottir slf. félag Annie Mistar Þórisdóttur tvöfalds heimsmeistara í Crossfit m.a. á listanum yfir aðra heilsutengda starfsemi líkt og sjá má á listanum hér að neðan.

Útreikningarnir byggja á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti í síðustu viku. Samlags- og sameignarfélög skila alla jafna ekki inn ársreikningi til fyrirtækjaskrár líkt og raunin er til að mynda með hlutafélög.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.