Að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar og bílaleigunnar Thrifty, hafa verið mjög góð viðbrögð við rýmingarsölu Thrifty sem hófst í gær. Að sögn Egils er ætlunin að selja um 100 bíla af 400 bíla flota Thrifty. Bílarnir eru seldir með allt að 40% afslætti.

Að sögn Egils eru það elstu bílarnir sem hafa verið settir í sölu. "Við erum helst að selja fólksbíla því það er ákveðin skortur á jeppum á bílaleigunum," sagði Egill. Að sögn Egils hefur verið ótrúlegur gangur á leigunni í sumar og enn eru ágætar bókanir hjá leigunni, sérstaklega í jeppum.

- En nú er tímabilið stutt hjá bílaleigum?

,,Já það má segja að það sé ein af kúnstunum í þessum bransa að laga sig að vetrinum. Þetta hefur passað rosalega vel við reksturinn okkar."

- En nú seljið þið þetta með afslætti - man ég það ekki rétt að þið gagnrýndu Ingvar helgason hf. fyrir að gera það sama?

,,Ég gagnrýndi það ekki opinberlega en ég hefði gert það ef ég hefði verið spurður. Þeir voru með 50-60% afslátt af nýjum bílum þegar við erum með í mesta lagi 40% afslátt af notuðum bílum. Það er dálítið mikill munur þarna. Eins eru þetta bílaleigubílar og þetta er nokkuð sem bílaleigurnar hafa alltaf gert í gegnum árin. Síðast en ekki síst erum við ekki láta almenning niðurgreiða bílanna í gegnum bankanna. Það hlýtur að vera aðalmálið."

Í boði eru nýlegir Thrifty bílaleigubílar á 20 til 40% afslætti, en veittur er allt að 1.900 þús. kr. afsláttur frá markaðsverði stærri bíla og allt að 400 til 800 þús. kr. afsláttur af smærri eða meðalstórum bílum. Rýmingarsala Thrifty er haldin í samstarfi við Brimborg eins og áður sagði.