Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, hefur látið af formennsku  hjá Bílgreinasambandinu, BGS.

Ástæðan er að meirihluti stjórnar sambandsins hafnaði á stjórnarfundi 26. maí síðastliðin tillögu Egils um að hefja undirbúning að stofnun siðanefndar.

Í tilkynningu frá Agli kemur fram að það hafi verið grundvallaratriði í stefnumótun hans sem formanns BGS.

„Frá því ég tók við formennskunni, í mars 2007, hef ég lagt ríka áherslu á aukna fagmennsku innan bílgreinarinnar. Meðal þeirra markmiða sem ég hef lagt áherslu á í stjórnartíð minni eru aukið gegnsæi í skipulagi greinarinnar í heild með gæði að leiðarljósi. Sérstaklega hef ég lagt mig fram um að bæta verkferla og auka skilning á heiðarlegum viðskiptaháttum hjá aðildarfyrirtækjum sambandsins, í samræmi við lög og reglur. Það ætti að stuðla að aukinni fagmennsku innan bílgreinarinnar, sem ég tel vera ábótavant. Einnig hef ég talið nauðsynlegt að samskipti greinarinnar við fjölmiðla og neytendur verði aukin," segir í tilkynningu Egils.

Egill bendir á að að stofnun siðanefndar Bílgreinasambandsins sem starfa myndi eftir sérsniðnum siðareglum þess yrði án vafa sambandinu og neytendum til hagsbóta.

„Að mínu mati er siðanefnd einn mikilvægasti þátturinn í því að ályktun aðalfundar frá 3. apríl sl. um bætta viðskiptahætti komist í framkvæmd. Á stjórnarfundinum 26. maí var tillögu minni að undirbúningi stofnunar siðanefndar hafnað af meirihluta stjórnarinnar.

Í ljósi þess tel ég mér ekki kleift að sinna áfram störfum mínum í stjórn sambandsins. Ástæðan fyrir afsögn minni er þó ekki síst vantraustsyfirlýsing tveggja stjórnarmanna vegna ákvörðunar minnar um að taka strax til umfjöllunar í stjórn alvarlegt kvörtunarbréf frá Toyota á Íslandi vegna markaðsfærslu Heklu „gegn verðbólgu“ og vegna eðlilegra samskipta minna við fjölmiðla um málið."

Það skal tekið fram, að Brimborg segir sig ekki úr Bílgreinasambandinu.