Landsbankinn hyggst skrá á markað fasteignafélag sem verður m.a. með verslunarmiðstöðina Smáralind og Egilshöllina í eignasafni sínu. Líklegt er að þetta gerist á næsta ári.

Þetta staðfesti Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins, dótturfélags Landsbankans, við Viðskiptablaðið í gær. „Við höfum verið að undirbúa það hvernig mögulegt er að selja eignirnar. Það skiptir miklu máli að eignirnar séu góðar og við teljum að það sé skynsamlegt að taka stórar eignir út og setja þær undir Fasteignafélag Íslands og skrá það síðan á markað. Það skiptir miklu máli að félagið sé með eignasafn sem hentar vel til skráningar og það er það sem við höfum verið að vinna að.“