„Þegiðu nú, Guðni,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, í ræðustól Alþingis í dag, og beindi orðum sínum að Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, sem hafði kallað fram í framsöguræðu Steingríms við utandagskrárumræðu um stefnu ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

Steingrímur var í miðjum klíðum að fjalla um að Samfylkingin hefði svikið kosningaloforð sín og stefnuna Fagra Ísland eftir að hún komst í ríkisstjórn þegar Guðni Ágústsson kallaði fram í ræðuna og þótt áheyrendur heyrðu ekki orðaskil brást Steingrímur hart við og sagði: „Þegiðu nú, Guðni.”

„Það er allt í lagi að kalla fram í ef það er vit í því sem er sagt.”

Forseti vítti ekki Steingrím og gerði ekki athugasemdir við þessi orðaskipti formanna tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna.

Í lok ræðu Steingríms bað Sturla Böðvarsson, þingforseti, þingmenn hins vegar að gæta að orðavali.