Slíta á fjárfestingafélaginu Egla hf., sem var stærsti kaupandinn þegar ríkið seldi 45,8% hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Einar Páll Tamini og Stefán Árni Auðólfsson hafa verið skipaðir yfir slitanefnd félagsins samkvæmt ákvörðun hluthafa félagsins, fyrr á þessu ári.

Skráðir hluthafar Eglu við einkavæðinguna voru félögin Ker hf. með 49,5% hlut, VÍS með 0,5% hlut og fremur lítt þekktur þýskur banki, Hauck & Aufhäuser, með 50% hlut. Þremur mánuðum eftir sölu ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum, eða í apríl 2003, var greint frá því að stjórnir Búnaðarbankans og Kaupþings hefðu tekið ákvörðun um að leggja fyrir hluthafa að bankarnir myndu sameinast sem gekk eftir í maí 2004.

Egla var stærsti hluthafi sameinaðs banka með tæplega 9,5% hlut. Lengi höfðu hins vegar verið uppi efasemdir um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser að viðskiptunum. Vilhjálmur Bjarnason hélt því fyrst fram árið 2005 að einhver innan S-hópsins eða hugsanlega Kaupþing hefði verið raunverulegur eigandi á hluta Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum. Forsvarsmenn Eglu neituðu því alla tíð.

Leynisamningar um endanleg yfirráð

Í maí árið 2016 greindi Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, frá því að honum hefðu borist í trúnaði nýjar upplýsingar um hver hlutur þýska bankans í söluferlinu var í raun.

Í kjölfarið skipaði Alþingi rannsóknarnefnd sem fór yfir gögnin í samræmi við ráðleggingar Tryggva. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar, sem birt var árið 2017, var að íslensk stjórnvöld og almenningur hefðu verið blekkt um hver raunveruleg aðkoma Hauck & Aufhäuser var að kaupunum. Aldrei hafi staðið til að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur fjárfestir í Búnaðarbankanum. Með leynisamningum hafi endanleg yfirráð, áhætta og ávinningur af viðskiptunum ekki verið í höndum bankans. Félagið Welling & Partners, skráð á Tortóla, hafi haft yfirráð yfir hlutunum, en það félag var sagt í eigu Kaupþings eða dótturfélagsins Kaupthing Bank Luxembourg. Þá lánaði Kaupþing Welling & Partners fyrir kaupverðinu á hlutunum í Búnaðarbankanum. Hauck & Aufhäuser hafi fengið eina milljón evra í þóknun fyrir sinn þátt í viðskiptunum.

Hagnaðurinn runnið til Tortóla

Hlutirnir sem Hauck & Aufhäuser var skráð fyrir voru seldir í tveimur áföngum á árunum 2004 og 2005 og nam hagnaður af viðskiptunum minnst 102 milljónum dollara samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Söluhagnaðurinn rann til Welling & Partners á Tortóla. Þaðan fór hagnaðurinn ekki til Kaupþings þó að félagið bæri áhættuna af þróun hlutabréfaverðs í Búnaðarbankanum samkvæmt baksamningum heldur til félaganna Marine Choice Limited og Dekhill Advisors, sem einnig voru skráð á Tortóla. Samkvæmt skýrslunni var Marine Choice Limited í eigu Ólafs Ólafssonar en rannsóknarnefndin sagðist ekki hafa upplýsingar um hver ætti Dekhill Advisors. Í bókinni Kaupthinking sem Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, gaf út á síðasta ári var fullyrt að embætti skattrannsóknarstjóra teldi Bakkavarabræður, Lýð og Ágúst Guðmundssyni, raunverulega eigendur Dekhill Advisors.

Gengið til nauðasamninga 2009

Í bankahruninu var Egla nær alfarið í eigu Ólafs Ólafssonar í gegnum félagið Kjalar. Egla átti 9,88% hlut í Kaupþingi, 39,7% í hlut í Alfesca, áður Sambandi íslenskra fiskframleiðenda ásamt hlut í Exista. Í bankahruninu urðu hlutirnir í Kaupþingi og Exista verðlausir. Eignarhlutinn í Alfresca var færður inn í nýtt félag og var áfram í eigu Ólafs. Í apríl 2009 óskaði stjórn Eglu eftir nauðasamningum við lánardrottna sem voru samþykktir í lok júní 2009. Í kjölfarið urðu kröfuhafar Eglu hluthafar í félaginu. Samkvæmt nauðasamningsfrumvarp félagsins var ráðgert að kröfuhafar fengju 15% upp í skuldir. Nauðasamningskröfurnar voru gerðar upp á árinu 2011. Lítil sem engin starfsemi hefur verið í Eglu síðustu ár og nú er komið að því að slíta félaginu.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .