Egla Invest B.V. hagnaðist um 4,3 milljarða króna á rekstarárinu 2007, en hagnaður félagsins dróst saman um tæplega 13 milljarða króna frá því árinu áður. Egla er þriðji stærsti hluthafi Kaupþings [ KAUP ] og ræður yfir 9,88% eignarhlut í bankanum.

Fram kemur í tilkynningu frá fjárfestingafélaginu að markaðsverð skráðra eignarhluta í eignasafni hafi lækkað talsvert á yfirstandandi ári auk þess sem gengi krónunnar hafi veikst mikið, en þrátt fyrir það sé eiginfjárstaðan sterk á áritunardegi uppgjörsins. Eiginfjárhlutfall Eglu er ríflega 50%, að því er segir í tilkynningu.

Fjármagnsgjöld félagsins hafa ríflega tvöfaldast milli ára sem hefur sitt að segja í afkomu félagsins. Einnig nam skattatap á árinu um 7,3 milljörðum, en á síðasta fjárhagsári nam reiknaður tekjuskattur 628 milljónum króna. Gangvirðisbreytingar fjárfestingahlutabréfa drógust saman um þrjá milljarða.

Uppgjör Eglu er nú gert samkvæmt IFRS reikningsskilastöðlum í fyrsta skipti með óverulegum áhrifum á afkomu félagsins.