Egla hf. tapaði um 15 milljörðum króna á sex mánaða tímabili eða nánar til tekið 15.031 milljónum króna en fyrir sama tímabil í fyrra var hagnaður félagsins 23.076 milljónir króna.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu í dag.

Þar kemur fram að gengisvirðisbreyting hlutabréfa var neikvæð um 6.890 milljónir króna í    samanburði við jákvæða breytingu um 23.639 milljónir króna frá fyrra ári.

Reiknaður tekjuskattur tímabilsins var 836 milljónir króna.

Þá kemur fram að eignir félagsins lækkuðu um 33.587 milljónir króna frá byrjun árs til loka tímabilsins. Heildarskuldir Eglu hf. lækkuðu um 18.555 miljónir króna frá upphafi árs til loka tímabilsins og eru 37.198 milljónir króna.

„Á yfirstandandi reikningstímabili hefur ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum einkennst af mikilli lausafjárkreppu með þeim afleiðingum að hlutabréf skráðra félaga á Íslandi hafa lækkað mikið auk þess sem lán félagsins hafa hækkað með veikingu krónunnar,“ segir í tilkynningunni.

„Í þeim tilgangi að verjast gengisáhættu hefur móðurfélag félagsins, Kjalar hf. gert gjaldmiðlasamninga á heildarlánasafni samstæðunnar.Eiginfjárstaða Eglu hf. er sterk og er félagið vel í stakk búið til að takast á við fjármálaumhverfið á yfirstandandi ári.“

Þá kemur fram að markaðsverð skráðra félaga í eignasafni Eglu hf. hefur lækkað það sem af er seinni helmings 2008.

Eignarhlutur félagsins í Kaupþingi hf. hefur lækkað um 5,2% og í Alfesca um tæp 12,9% á tímabilinu.

Á sama tímabili hefur gengi íslensku krónunnar veikst um 16,83%, segir í tilkynningunni.