Hlutabréf í Egypsku kauphöllinni lækkuðu um 10% þegar opnað var aftur fyrir viðskipti í gær eftir tveggja mánaða lokun sökum óvissuástands þar í landi. Kauphöllin var aðeins opin í nokkrar mínútur þar sem ákveðið hafði verið fyrirfram að loka henni ef verð lækkaði meira en 10% innan dagsins.

Kauphöllinni var lokað 27. janúar og hafði þá verð hlutabréfa lækkað um 18% síðustu tvo daga. Nauðsynlegt var að opna kauphöllina aftur þar sem hlutabréf egypskra fyrirtækja eru í alþjóðlegri vísitölu Morgan Stanley (MSCI) sem alþjóðlegir fjárfestar líta mikið til. Ef lokað hefði verið degi lengur hefðu egypsk hlutafélög ekki lengur uppfyllt skilyrði Morgan Stanley.