*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Fólk 5. janúar 2021 09:22

Eiður og Sesselía ráðin til Haga

Eiður Eiðsson og Sesselía Birgisdóttir koma til liðs við Haga í stafræna þróun, nýsköpun og markaðsmál.

Ritstjórn
Eiður Eiðsson og Sesselía Birgisdóttir hafa gengið til liðs við Haga frá Vís og Advania
Aðsend mynd

Hagar hafa ráðið þau Eið Eiðsson og Sesselíu Birgisdóttur í framkvæmdastjóra- og forstöðumannastöður hjá félaginu.

Eiður Eiðsson hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni Haga hf., en staðan er ný hjá Högum, og liður í stefnu félagsins að nýta stafrænar leiðir til að gera verslun bæði einfaldari og þægilegri og bæta stöðugt upplifun viðskiptavina.

Eiður kemur til Haga frá VÍS þar sem hann var forstöðumaður stafrænna verkefna og hefur leitt þar stærstu stafrænu umbreytingarverkefni sem félagið hefur ráðist í. Hann er viðskiptafræðingur að mennt og hefur áralanga reynslu í upplýsingatækni og stafrænni þróun þar sem hann hefur komið að bæði grunnrekstri í upplýsingatækni og eins stafrænni umbreytingu fyrirtækja á síðustu árum.

Sesselía Birgisdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum hf. Um er að ræða nýja stöðu innan fyrirtækisins þar sem áherslan verður á að tryggja að þjónusta Haga og dótturfélaga sé ávallt í takt við nútíma þarfir viðskiptavina.

Sesselía mun einnig bera ábyrgð á vörumerkja- og samskiptamálum Haga á breiðum grunni. Sesselía hefur áralanga reynslu af stafrænum verkefnum og markaðsmálum. Hún kemur til Haga frá Póstinum þar sem hún var framkvæmdastjóri Þjónustu og markaðar.

Áður starfaði hún sem forstöðumaður stafrænna miðla og markaðsmála hjá Advania. Sesselía er með tvær mastersgráður frá Háskólanum í Lundi, annars vegar í stjórnun mannauðs með áherslu á þekkingarmiðlun og breytingar og hins vegar í alþjóða markaðsfræði og vörumerkjastjórnum.

„Framundan hjá okkur í Högum og dótturfélögum er spennandi vegferð sem miðar að því að efla á breiðum grunni samtal okkar við viðskiptavini og tryggja að þjónusta okkar sé ávallt í samræmi við þarfir þeirra á hverjum tíma,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.  

„Leiðarljós okkar í þessu ferðalagi er að vera í fararbroddi í verslun, sérstaklega þegar kemur að nýjungum og nýtingu nýrra aðferða og tækni til að einfalda verslun, auka þægindi og hagkvæmni.

Það er mikill fengur af því að fá þau Eið og Sesselíu til liðs við okkur, enda búa þau yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á sviði stafrænnar þróunar, upplýsingatækni, þjónustu og markaðsmála sem mun nýtast okkur í skemmtilegum og krefjandi verkefnum sem eru á sjóndeildarhringnum. Við bjóðum þau innilega velkomin í teymið.”