Mikið hefur verið fjallað um tekjur og fjármál Eiðs Smára í fjölmiðlum í gegnum tíðina. Fjallað hefur verið um hugsanlegt gjaldþrot og tap á fjárfestingum. Eiður Smári höfðaði mál gegn DV í árslok 2009 vegna umfjöllunar blaðsins um einkafjárhag hans. Hann segir þó slíkar umfjallanir oftast ekki hafa haft áhrif á sig. „Það sem mér finnst verst er hvað það kemur við fólkið í kringum mig, fjölskyldu, foreldra og ömmur og afa. Það er eins og þau taki þetta frekar inn á sig heldur en ég. Ég hef alltaf hugsað að þetta sé bara maður með penna, ekki eitthvað alvarlegra. Þarna er einhver sem ákveður að hann hafi vald til að skrifa þetta og gerir það bara. Hvort sem það eru einhverjar heimildir fyrir því eða ekki og sama hvað það er. Þetta er hluti af lífinu, hluti af því að vera í sviðsljósinu og vera þekkt persóna. Í eina skiptið sem þetta fór í rauninni í taugarnar á mér var þegar mér fannst verið að fara inn á eitthvað svið sem engum kemur við. Mér kemur ekki við hvað annar maður er með í laun. Ég hef ekki rétt á að spyrja mann hvað hann sé með í laun. En af því ég er fótboltamaður finnst þeim allt í lagi að fjalla um þetta. Ég myndi heldur aldrei spyrja neinn í hverju hann væri að fjárfesta nema hann myndi vilja deila því.“

Ertu svekktur hvernig fór með þínar fjárfestingar?

„Ég er bara Íslendingur og ég held það séu ekki margir sem lentu ekki í einhverju. Hvort sem það er húsnæðislán eða tap á fjárfestingum, það lentu allir í einhverju. Ég var í viðskiptum við banka í Lúxemborg og hann var allt í einu bara ekki til.“

En mun þetta hafa áhrif á ykkur og framhaldið eftir að ferlinum lýkur?

„Nei, ég get ekki séð það. Ég hef sérstaklega seinni árin verið lítið upptekinn af peningum. Peningar gefa ekkert þótt þeir vissulega auðveldi þér lífið. Það er betra að hafa þá en að hafa þá ekki. Það er ekki þannig að ég sjái eftir einhverju. Það eina sem mér fannst leiðinlegt var þegar ég var á einhverjum tímapunkti gerður að útrásarvíkingi í fjölmiðlum, sem var algjört kjaftæði.“