Það sem hefur staðið upp úr í íslenskum fótbolta undanfarinn áratug er Eiður Smári Guðjohnsen," segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. Hann segir að Íslendingar átti sig ekki alltaf á því hversu miklum árangri Eiður Smári, sem nú er leikmaður AEK Aþenu, hafi náð.Hann sé þekktur um allan heim fyrir fótboltahæfileika sína. „Hvar sem maður kemur er Guðjohnsen nefndur þegar maður segist vera frá Íslandi. Þetta er auðvitað stórkostlegt fyrir okkur sem vinnum við íslenska knattspyrnu. Eiður Smári hefur verið algjör yfirburðamaður í íslenskum fótbolta í meira en áratug og það er meira en að segja það.Hann er leikmaður í heimsklassa og mun vonandi í mörg ár í viðbót vera burðarstólpinn í okkar liði. Svo bindur maður auðvitað vonir við að við eignumst annan leikmann eins og Eið Smára, helst fleiri!" segir Geir og glottir við tönn. Hann segir marga unga íslenska fótboltamenn geta horft til þess að allt sé hægt ef mikill vilji og hæfileikar fara saman. „Eiður Smári hefur rutt brautina fyrir aðra og gefið þeim von um að mikill dugnaður og hæfileikar geti komið þeim í fremstu röð. Þetta er ómetanlegt fyrir íslenskan fótbolta og íslenska íþróttahreyfingu að eiga leikmann í fremstu röð." 

Ítarlegt viðtal er við Geir Þorsteinsson í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.