Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, telur að Seðlabankinn, sem tekur lán í nafni Ríkisins, eigi að taka tíu milljarða evra lán til þess að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð en sjóðurinn ætti um leið að fjárfesta í verðbréfum, með það að markmiði að lágmarka kostnað vegna lántökunnar.  Væri þetta umtalsverð stækkun á gjaldeyrisvarasjóðnum sem er um tveir milljarðar evra, með einn milljarð evra til viðbótar í lánalínur.

„Gjaldeyrisvarasjóðurinn er ekki nándar nærri nógu stór," segir Vilhjálmur í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku.

Aðspurður hversvegna hann nefndi lánaupphæðina tíu milljarðar evra, segir Vilhjálmur hann hana vera í samhengi við stærð lánakerfisins.

Vilhjálmur telur að gjaldeyrisvarasjóðurinn ætti að fjárfesta í verðbréfum en það ætti að marka sjóðnum fjárfestingastefnu. Aðspurður hvort það sé eðlilegt að hið opinbera verði virkur aðili á markaði, segir hann að heilmargar ríkistofnanir reki gjaldeyrisvarasjóði með þeim hætti.

Tekur undir orð Vilhjálms - en ókostur að skuldsetja ríkissjóð

„Ég tek undir þau orð Vilhjálms, að það þurfi að stækka gjaldeyrisvarasjóðinn verulega. Það myndi styrkja Seðlabankann verulega í að sinna hlutverki sínu. Á móti kemur sá ókostur að skuldsetja ríkissjóð," segir Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.

Ingólfur segir að eitt af því jákvæða sem erlendum aðilum er bent á, þegar þeir rýna í efnahagsástandið, er lítil skuldasetning hins opinbera. Að vissuleyti er verið að fórna þeirri stöðu, með slíkri lántöku. Aukin heldur gæti það haft áhrif á það hvernig alþjóðleg matsfyrirtæki meti lánshæfi Ríkissjóðs.

Þá gætu þau litið á það sem björgunaraðgerð, verði það gert í þessu árferði. Engu að síðu þarf Seðlabankinn stærri gjaldeyrisforða, ef hann á að verða trúverðugur í hlutverki sínu, að geta stutt við bakið á fjármálfyrirtækjum landsins.

Nú er hinsvegar ekkert sérstaklega góðar aðstæður til ráðast í stóra erlenda lántöku, að mati Ingólfs, sem telur að Seðlabankinn hefði átt að nýta tækifærið og auka gjaldeyrisvaraforðann sinn, þegar markaðsaðstæður voru betri og krónan sterk. Verði farið í að stækka gjaldeyrisforðann nú, getur verið litið á það sem lið í björgunaraðgerð, að mati Ingólfs.

Ingólfur telur að gjaldeyrisforðinn eigi að vera um vera viðlíka því sem Vilhjálmur nefnir, svo hann geti verið trúverðugur. „Jafnvel meira," segir hann.