*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Erlent 22. júní 2017 18:43

Eiga að borga skattaskuldir

Efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins gagnrýndi skattaundanskot knattspyrnumanna í heimsókn sinni til Madrid í dag.

Ritstjórn
epa

Pierre Moscovici segir að knattspyrnumenn í Evrópu þéni meira en nóg til þess að þeir þurfi að beita brögðum til þess að komast undan því að standa við skuldbindingar sínar. Þetta sagði efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins í heimsókn sinni til Madrid. Bloomberg greinir frá.

Sagði Moscovici að leikmenn ættu að sýna mun meira gagnsæi fjármálum sýnum og gagnrýndi flókna uppbyggingu á fjármálum bestu leikmanna heims sem hefur verið sett upp til þess að komast hjá skattgreiðslum. Lagði hann til að skattarágjafar og lögmenn leikmanna yrðu skyldaðir til að útskýra fyrir skattsyfirvöldum í hverju landi hvernig fjármálum þeirra væri háttað. 

Ummælin koma í kjölfarið á því að nokkrir af bestu knattspyrnumönnum heims hafa verið ákærðir og dæmdir á Spáni fyrir skattalagabrot. Hafa brotin snúið að því að leikmenn hafa falið tekjur með notkun aflandsfélaga. Á síðastliðnum mánuði hafa Argentínumennirnir Lionel Messi og Angel Di Maria báðir verið dæmdir fyrir skattsvik af spænskum dómstólum. Þá hafa spænsk skattayfirvöld lagt fram kæru á hendur Cristiano Ronaldo, besta knattspyrnumanni heims. Ronaldo er ekki eini Portúgalinn sem er í vandræðum vegna skattamála. BBC greindi frá því fyrr í vikunni að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United væru undir smásjá spænskra yfirvalda vegna brota sem eiga að hafa átt sér stað þegar hann var knattspyrnustjóri Real Madrid.