„Við höfum átt einn fund með gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Einu upplýsingarnar eru þær að við eigum að kaupa sem ódýrast og selja sem dýrast,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Greint var frá því í gær að Seðlabankinn hafi lokið rannsókn á meintum brotum útgerðarinnar á gjaldeyrislögum og sent málið til sérstaks saksóknara.

Þorsteinn sagði í viðtali í RÚV í morgun að það hafi verið ákveðinn léttir að hreyfing sé komin á málið. Hvorki hann né aðrir stjórnendur fyrirtækisins hafi séð eitt né neitt um málið og Seðlabankinn ekki séð ástæðu til að tjá sig um það. Hann ítrekaði þó að fyrirtækið hafi ekki gert neitt rangt og vísaði því á bug að um kerfisbundið svindl hafi verið að ræða.

Þorsteinn sagði málið hafa haft áhrif á Samherja á margan hátt, m.a. í bankaviðskiptum.