*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Erlent 21. júní 2021 15:59

Eiga bitcoin fyrir þrjá milljarða dala

Hugbúnaðarfyrirtækið MicroStrategy er meðal stærstu eigenda bitcoin í heiminum. Verð myntarinnar hefur fallið um 20% á einni viku.

Snær Snæbjörnsson
Bitcoin hefur fallið um 20% á einni viku.
epa

Bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið MicroStrategy Inc. keypti nýverið rúmlega 13 þúsund bitcoin fyrir um 489 milljónir dali og á nú í heildina um 100.000 myntir. Heildarandvirði þeirra er um 3,3 milljarðar dollara sé miðað núverandi gengi. CNBC greinir frá.

MicroStrategy framleiðir greiningarhugbúnað sem auðveldar fyrirtækjum ákvörðunartöku en er þó aðallega þekkt fyrir kaup sín á rafmyntinni. Hlutabréfaverð þess hefur meira en fimmfaldast frá því að það hóf kaup á myntinni í ágúst í fyrra.

Fyrirtækið er meðal stærstu eiganda bitcoin í heiminum og hefur meðal annars gefið út skuldabréf til þess að fjármagna kaup á myntinni. Þá hyggst fyrirtækið selja hlutabréf fyrir milljarð dali til þess að kaupa fleiri myntir.

Bitcoin lækkað um 20% á einni viku

Bitcoin féll undir 32 þúsund dali í kjölfar frétta frá Kína um að stjórnvöld þar ætluðu taka harðar á notkun og greftri eftir rafmyntum. Undanfarna sjö daga hefur gengi myntarinnar lækkað um hartnær 20%. Nýjust vendingarnar eru að stjórnvöld í Sichuan héraði hafa skipað bitcoin gröfurum í héraðinu að hætta greftri.

Talið er að 90% af bitcoin framleiðslugetu Kína sé nú ónýtt en um 65% af öllum greftri eftir myntinni á sér stað í landinu. Þá hefur Seðlabanki Kína kallað eftir því að Alipay og stærstu bankar landsins loki á viðskipti með rafmyntir. Nú þegar hefur fjármálafyrirtækjum í Kína verið bannað að veita ráðgjöf um rafmyntir.

Stikkorð: bitcoin MicroStrategy