„Það er talin ástæða til að fara yfir efnið með ráðherranefndinni áður en smiðshöggið verður rekið á verkið og svo þurfa ráðherrar að lesa skýrsluna yfir áður en hún verður kynnt,“ segir Benedikt Árnason, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar. Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingarinnar skiluðu ráðherranefnd um skuldamál drögum að tillögum sínum í dag. Benedikt vildi hvorki tjá sig um niðurstöðurnar né efnislega um efni þeirra tillagna sem eru í skýrslunni.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að verkefni hópsins var sagt vera að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána og sé ekki búist við að blátt bann verði lagt við lánveitingum verðtryggðra lána þó að aðrar breytingar verði lagðar til um fyrirkomulag slíkra lánveitinga.

Í ráðherranefndinni sitja þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Á fundi nefndarinnar í dag var farið yfir grunnatriði skýrslunnar, sem er á annað hundrað blaðsíður með viðaukum.

Benedikt segir að gert sé ráð fyrir því að skýrslan verði afhent forsætisráðherra á mánudagskvöld eða þriðjudag og er stefnt á að hún verði kynnt í ríkisstjórn um eða eftir miðja næstu viku. Allt fer þetta þó eftir því hvenær gerð skýrslunnar lýkur.