„Það er að birta mikið til yfir bókunum þó að það þurfi ekki mikið til að verða betra en í fyrra. Við vonumst til að vera farin að sjá þokkalegar nýtingartölur í júlí og ágúst," segir Kristófer Oliversson, eigandi og framkvæmdastjóri Centerhotels í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, áður en Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir boðaði tillögur um hertar aðgerðir á landamærum.

Kristófer bætti þó við að það taki lengri tíma að fá ásættanlegt verð aftur. „Þetta er allt að þokast í rétta átt og verðið verður vonandi orðið bærilegt á næsta ári."

Reksturinn undanfarið ár hafi skilað miklu tapi og að fyrirtækin eigi enn eftir að vinna úr snjóhengjunni sem myndaðist.

„Það verða engar glæsilegar tölur vegna rekstursins í fyrra og ekki heldur í ár. Það eiga allir í geiranum eftir að vinna úr þeirri snjóhengju sem hefur safnast upp með frestunum á afborgunum og vöxtum. Hótelin eru ýmist búin að semja við bankana og leigusala eða eru að vinna í því, þannig að það er margt í gangi enn. Aðalatriðið er þó að nú eru farnar að koma inn tekjur, en það er forsenda þess að fyrirtækin geti gert raunhæfar áætlanir um hvernig standa skuli við skuldbindingar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .