Þó þeir feðgar Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson hafi einir hlotið náð hjá sérfræðingum Forbes að þessu sinni þá ætlar Viðskiptablaðið að nokkrir Íslendingar til viðbótar ættu erindi inn á listann.

Til þess að komast inn á listann þurfa Íslendingar að eiga 67 milljarða eða meira í hreinni eign en ætla má að nokkrir til viðbótar við feðganna ráði yfir slíkum fjármunum. Þar má fyrst nefna Ólaf Ólafsson, stjórnarformann Samskipa, en hér í Viðskiptablaðinu fyrir skömmu var áætlað að hann ætti ríflega 80 milljarða króna. Ólafur Ólafsson gaf fyrr á árinu einn milljarð króna til góðgerðarmála í Afríku og því myndi hann sóma sér vel á listanum ásamt góðgerðarmönnunum Bill Gates og Warren Buffet.

Einnig má leyfa sér að ætla að þeir bræður Lýður og Ágúst Guðmundssynir uppfylli þau skilyrði sem sett eru til að vera á listanum en þeir eru langstærstu hluthafar í Exista og sennilega nálgast eign þeirra bræðra í félaginu það að vera hrein eign. Markaðsvirði Exista er nú 315 milljarðar króna og tæplega helmingshlutur þeirra bræðra í félaginu er að andvirði 150 milljarða króna.

Sömuleiðis má velta fyrir sér hvort þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Jón Helgi Guðmundsson eiga erindi inn á listann, en erfiðara er að meta auð þeirra þar sem þeir eiga mikið í óskráðum eignum. Þrátt fyrir að Hannes Smárason hafi verið mikið í fjölmiðlum að undanförnu og mikið hafi farið fyrir honum sem fjárfesti og auðmanni á hann líklega nokkuð í land með að komast á lista Forbes.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.