Síðustu tvö ár hefur Halldór starfað sem framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá N1, en þar áður var hann forstöðumaður markaðsdeildar Símans frá 2010 til 2013. Þar á undan var hann framkvæmdastjóri markaðs- og framleiðsludeildar Latabæjar og forstöðumaður markaðsdeildar Icelandair. Halldór er með B.Sc. gráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands.

Halldór segist spenntur fyrir nýjum starfsvettvangi, en þetta er í fyrsta sinn sem hann stígur inn fyrir þröskuld bankageirans.

„Þarna bauðst mér spennandi tækifæri og vettvangur til þess að kynnast bönkunum og því umhverfi sem þeir bjóða upp á," segir hann. „Ég hef ekki unnið í banka síðan ég var í háskólanámi þegar ég starfaði með fram því hjá Glitni. Ég byrja núna á miðvikudaginn og þetta leggst gríðarlega vel í mig. Þetta er mjög spennandi og skemmtileg áskorun.“

Halldór er giftur henni Kristínu Johansen og eiga þau saman þrjú börn. Hann segist eiga mörg áhugamál. Meðal annars hafi hann gaman af því að hlusta góða tónlist, elda og borða góðan mat og drekka vín með góðum vinum. Þá segist hann stunda stangveiði og meðal annars veiða í Hörgá.

Fjölskyldan hefur skipulagt ýmis ferðalög í sumar. „Við ætlum að leggja land undir fót og fara til Frakklands í sumarfrí. Svo ætlum við að ferðast um landið og þá förum við pottþétt í Hörgárdalinn. Við eigum þar smá griðastað, fjölskyldan, lítið sumarhús í dalnum."

Nánar er rætt við Halldór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .