*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Fólk 20. maí 2018 19:01

Eiga hrokafulla ketti

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir er nýr upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar.

Ritstjórn
Nýráðinn upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, á tvo vanþakkláta ketti, en hún nýtur sín með barnabörnunum og við lestur ljóða og skáldsagna.
Haraldur Guðjónsson

Íslensk erfðagreining hefur ráðið Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, margreyndan blaðamann, sem nýjan upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. „Starfið felst í því að halda utan um upplýsinga- og samskiptamál, en fá fyrirtæki eru jafn spennandi,“ segir Þóra Kristín.

„Saga okkar, þjóðarinnar, kynslóðanna, einstaklinganna er skráð í genamenginu og færustu vísindamenn okkar keppast við að ráða í vísbendingarnar. Það er auðvitað mikil áskorun að kynnast því sem þau eru að gera og reyna að miðla því áfram eftir bestu getu.“

Þóra Kristín segir að þarna liggi mikil tækifæri, hvort sem er í þróun nýrra lyfja, forvarna og nýrri nálgun í heilbrigðisþjónustu. „Kári Stefánsson er heimsþekktur vísindamaður og hann og aðrir vísindamenn í fyrirtækinu hafa gert það að verkum að Ísland er í forystu í erfðavísindum í heiminum,“ segir Þóra Kristín.

„Ég hef lengst af verið fjölmiðlakona, hef starfað við flesta fjölmiðla landsins, síðustu 30 árin, RÚV, Stöð 2, MBL, allt aftur til gamla Alþýðublaðsins, Pressunnar og Helgarpóstsins. Mér hefur alltaf fundist blaðamennska skemmtilegt starf. Starfið er kjörið fyrir fólk sem hefur áhuga á samfélagsmálum, stjórnmálum og ástríðu fyrir fólki. Ég bara lenti í blaðamennsku, ánetjaðist henni og það hefur aldrei verið dauður punktur.“

Þóra Kristín segist hafa verið heppin að fá tækifæri til að vinna við margs konar miðla,  dagblöð, tímarit, útvarp, sjónvarp, vef og vefsjónvarp. Hún er í sambúð með Björgu Evu Erlendsdóttur en sjálf á hún uppkomna dóttur og tvö barnabörn.

„Svo á það þriðja á að fæðast í ágúst. Björg Eva á þrjú börn og tvö barnabörn og ég lít svo á að ég eigi líka mikið í þeim. Við eigum líka tvo, vanþakkláta og hrokafulla ketti sem heita Fífill og Sóley og nokkra hesta sem búa í sveitinni,“ segir Þóra Kristín.

„Mitt aðaláhugamál, fyrir utan barnabörnin, er samt að lesa bækur, jafn óspennandi og það nú hljómar, skáldsögur og ljóð eru þar í mestu uppáhaldi. Ég get legið í bóklestri tímunum og jafnvel dögum saman. Mér finnst líka gaman að hlusta á góða tónlist og horfa á bíómyndir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.